Leita í verlun

Saga Sólheima

Saga Sólheima

Sesselja Sigmundsdóttir

Sesselja Hreindís Sigmundsdóttir fæddist í Hafnarfirði 5. júlí 1902. Foreldrar hennar voru Kristín Símonardóttir og Sigmundur Sveinsson.Systkini Sesselju voru sjö; Steinunn, Sigríður, Gróa, Þórarinn, Kristinn, Lúðvik og Símon. Sesselja fluttist tveggja ára að Brúsastöðum í Þingvallasveit er faðir hennar tók við rekstri veitingahússins Valhallar. Árið 1919 fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur.

Sesselja stundaði nám í sex ár í Danmörku, Sviss og Þýskalandi, m.a. í uppeldisfræði, barnahjúkrun og rekstri barnaheimila og var fyrsti Íslendingurinn sem lærði umönnun þroskaheftra.Á námsárunum í Þýskalandi kynntist Sesselja kenningum dr. Rudolf Steiner (1861 – 1925 ) – ”anthroposophy” eða mannspeki. Sesselja stundaði einnig nám í garðyrkju, blómarækt og meðferð alifugla.

Sesselja leigði jörðina Hverakot af barnaheimilisnefnd Þjóðkirkjunnar og stofnaði Sólheima 28 ára gömul, á afmælisdegi sínum, þann 5. júlí 1930. Hún ól upp fjölmörg fósturbörn og var brautryðjandi í uppeldismálum og umönnun þroskaheftra á Íslandi. Sesselja var frumkvöðull í lífrænni ræktun, ekki aðeins á Íslandi heldur líka á Norðurlöndum og er í raun fyrsti íslenski umhverfissinninn.

Sesselja Hreindís Sigmundsdóttir

Eftir að Sesselja flutti til Íslands 1930 stóð hún í bréfaskriftum við fjölda fólks í Danmörku, Þýskalandi, Hollandi, Englandi og Sviss, m.a. um lífeflda ræktun (bio-dynamics) og mannspeki og ferðaðist hún reglulega til þessara landa. Meðal þeirra sem hún átti í bréfaviðskiptum voru dr. Karl König, stofnandi Camphill-hreyfingarinnar í Bretlandi, Sólveig Nagel frá Noregi og Caritu Stenback frá Finnlandi en þær voru frumkvöðlar í málefnum þroskaheftra í sínum heimalöndum.

Sesselja ættleiddi tvö börn: Hólmfríði og Elvar og ól upp 14 fósturbörn. Elvar lést 27. nóvember 1963. Sesselja giftist Rudolf Richard Walter Noah 17. mars 1949. Noah var þýskur tónlistarmaður og kennari, sem kom til Íslands 1935 en var handtekinn af breska hernum 5. júlí 1940 og fluttur í fangabúðir til Englands. Noah fékk ekki leyfi til að koma til Íslands fyrr en 1949 eftir níu ára fjarveru. Hann fór aftur til Þýskalands 7. mars 1953 án þess að Sesselja og hann skildu formlega. Noah lést í Þýskalandi 1967.
Sesselja lést á Landakotsspítala í Reykjavík 8. nóvember 1974, 72 ára gömul.  Jónína Michaelsdóttir rithöfundur skrifaði bókina ‘Mér leggst eitthvað til – sagan um Sesselju Sigmundsdóttur og Sólheima”. Bókin var gefin út af Styrktarsjóði Sólheima árið 1990. 

Draumasýn Sesselju

Þegar Sesselja var við nám erlendis árið 1928 skrifaði hún hjá sér í stílabók hugmyndir sínar og drauma: 

Mín jörð

Stóra jörð og mikið bú.
Með læk, fossi og hverum.
Hita upp með hvernum og sjóða í hveravatni.

Búið

Hafa búskapinn sér.
Hafa vinnufólkið mest á bænum.
Hafa vinnustofurnar þar.

Fyrir jólin

Hafa alltaf miklar útstillingar, basar, bögglauppboð.
Hafa alltaf miklar auglýsingar þegar útlendingar koma.
Tungumál. Verð, má til!

Hænsnarækt

Byggja stórt hænsnahús fyrir hundrað.
Kaupa og safna voreggjum.
Geyma í „wasser glasser“. Selja að haustinu.
Hafa sumargesti og börn.

Draumasýn Sesselju

Bygging

Fá lán hjá bænum; Byggja fyrst hús sem ég seinna get notað fyrir verkstæði. Þroska og æfa kraftana þar. Verkstæði og búð á bænum. Byrja strax að útbúa ýmsa handavinnu. Hafa stúlku við það. Skerma úr ýmsum efnum, silki, voal og vefnaði, basti og pappír. Búa til töskur, toilettpúða, tehettur, sófapúða, myndaalbúm, bókahnífa, tedósir, sígarettukassa, servettuhringi o.fl. Tinvinna. Blómaglös, kassa, lampa, ávaxtaskálar. Kaupa teikningar og innramma sjálf. Listar frá Kaupmannahöfn og Þýskalandi.

Tágaverkstæði

Hafa einn mann sem getur útbúið allt sem hægt er að útbúa úr tágum, borð, stóla, bekki, blómaborð, saumaborð og körfur. Selja blómakörfur. Láta verksmiðju smíða lampafætur. Pólera sjálf. Láta verksmiðju smíða legubekksgrindur. Hafa þá með heimaofnu. Skaffa eða hafa góða legubekki. Selja allt í herbergi fyrir einhleypt fólk.
Hafa allt heimaofið, einfalt en þó smekklegt. Hafa útstillingar í Reykjavík. Prjónavél, vefstóll. Hafa stúlku sem getur prjónað, saumað og ofið. Taka hjálp þegar á liggur eða hafa fleiri þegar það borgar sig. Selja mublufóður, dúka, vegg-, dyra- og gluggatjöld.

Hverakot

Sólheimar eru á jörðinni Hverakoti, sem byggð var úr landi Hamra. Jörðin er talin hafa verið í byggð 1650, en Jarðabókin árið 1708 telur Hverakot eyðijörð. Aftur var jörðin komin í byggð um 1800 og stóðu þá bæjarhúsin við hverinn. Um 1850 voru bæjarhúsin flutt frá hvernum upp á hólinn norðan við hverinn. Bæjarhúsin í Hverakoti féllu í jarðskjálftanum 1896.

Hverakotsbærinn taldist ekki íbúðarhæfur 1930 en endur voru hafðar í gömlu baðstofunni. Bæjarhúsin voru síðan jöfnuð við jörðu eftir 1950. Hverakotsjörðin er um 250 hektarar að stærð, þar af hafa 37 hektarar verið teknir úr ábúð vegna þéttbýlis. Austurhluti jarðarinnar nær að Brúará, en að miklum hluta er jörðin mýrlendi.

Barnaheimilisnefnd þjóðkirkjunnar undir forystu sr. Guðmundar Einarssonar á Mosfelli keypti jörðina 31. mars 1930 á átta þúsund krónur. Sama dag var gerður leigusamningur við Sesselju. Landskuld og leiga skyldi greiðast á fardögum með 400 krónum. Er Sólheimar voru gerðir að sjálfseignarstofnun 12. janúar 1934 lagði barnaheimilisnefnd jörðina til en Sesselja byggingar, innanstokksmuni og bú.

Hverakot

Sólheimar

Starf Sólheima hófst 5. júlí 1930 í tjöldum en þann dag komu fyrstu fimm börnin og nokkru síðar bættust önnur fimm við. Ekkert íbúðarhæft hús var á staðnum og því búið í tjöldum þar til Sólheimahúsið var fokhelt 4. nóvember um veturinn og hægt var að flytja inn í kjallarann. Lúðvík bróðir Sesselju smíðaði trégólf í tjöldin og leiddi undir þau hita frá hvernum.

Sólheimar voru stofnaðir sem barnaheimili, einkum fyrir börn sem bjuggu við erfiðar heimilisaðstæður svo sem foreldramissi eða veikindi foreldra. Einnig voru tekin börn til sumardvalar. Haustið 1931 kom fyrsta þroskahefta barnið að Sólheimum en þá voru engin úrræði til á Íslandi fyrir þroskahefta og þess voru dæmi að þroskaheft fólk væri geymt í útihúsum.

Árið 1934 voru skráð ’11 heilbrigð börn og 8 fávitar, auk sumardvalar barna’ og árið 1936 ’10 börn heilvita, 14 fávitar, auk barna í sumardvöl’. Starfsmannaskortur var mikill á árunum 1942 – 1944. Eftir stríð voru nær eingöngu þroskaheftir á Sólheimum, auk fósturbarna Sesselju og sumarbarna. Árið 1952 voru skráðir 16 fatlaðir, 1956 25 fatlaðir og 1964 45 fatlaðir.

Sólheimar

Sesselja lagði áherslu á að Sólheimar væru heimili en ekki stofnun og að fatlaðir sem ófatlaðir deildu kjörum í daglegu lífi og starfi. Á Sólheimum markaðist upphaf þeirrar stefnu sem nefnd er samskipan fatlaðra og ófatlaðra eða blöndun en sú stefna var ekki þekkt erlendis fyrr en um og eftir 1970. Sólheimar voru alla tíð skráð barnaheimili en 1984 var þess krafist að Sólheimar væru skráðir vistheimili og var svo í níu ár, þar til vistun fatlaðra lauk í janúar 1994 á Sólheimum. Á þeim tímamótum tóku fatlaðir upp sjálfstæða búsetu á Sólheimum. Þeir fá greiddar örorkubætur í stað vasapeninga vistmanna og greiða leigu fyrir sitt húsnæði og standa straum af kostnaði við eigið heimilishald. Fatlaðir íbúar eru nú 42 af um rúmlega eitt hundrað íbúum Sólheima.

Uppbygging

Fljótlega eftir að Sólheimahúsið var risið var farið að huga að frekari uppbyggingu. Selhamar er fyrsta húsið sem sérstaklega er byggt fyrir þroskahefta á Íslandi. Húsið var reist 1932 – 1933 en Alþingi styrkti framkvæmdina með 15 þúsund króna framlagi. Sólheimahúsið og Selhamar voru lengi einu íbúðarhúsin á Sólheimum eða þar til 1962 að húsin Sveinalundur og Lækjarbakki voru byggð og síðan Hvammur, Birkihlíð og Fagrabrekka árið 1970. Byggingafélagið Goði gaf Sólheimum sundlaug 1942, sem byggð var við hliðina á Sólheimahvernum. Sundlaugin var endurbyggð af Lionsklúbbnum Ægi 1980.

Viðbygging við Sólheimahúsið var tekin í notkun þann 7. maí 1966 en hún hýsir borðsal, eldhús og þvottahús í kjallara. Með þessum byggingum var kominn vísir að þéttbýli að Sólheimum. Fyrstu fimm árin var enginn sími á Sólheimum og rafmagn fékkst ekki fyrr en 1956 eftir mikla baráttu, þrátt fyrir að stærstu raforkuver landsins væru í hreppnum. Vindmylla var sett upp á Sólheimum 1943 og framleiddi rafmagn fyrir lýsingu í Selhamri og í Sólheimahúsi en um var að ræða 32 volta rafstöð.

Árið 1986 samþykkti framkvæmdastjórn Sólheima áætlun um byggingu íbúðarhúsnæðis fyrir fatlaða íbúa Sólheima með það að markmiði að gefa öllum sem þess óskuðu kost á sérbýli. Á sjö árum, frá 1987 til 1994, voru byggð 3 sambýli og 17 íbúðir fyrir fatlaða. Á sama tíma var flest eldra húsnæði gert upp og breytt í íbúðir. Byggðahverfi var risið að Sólheimum. 

Uppbygging

Íbúðarhúsnæði byggt eftir 1986 er eign Styrktarsjóðs Sólheima og að mestu fjármagnað með lánum frá byggingasjóði verkamanna og síðar Íbúðalánasjóði. Árið 1999 var lokið byggingu fyrsta íbúðarhússins í einkaeign á Sólheimum. Íbúðarhúsin sem byggð eru eftir 1986 bera nöfn úr ritverkum Halldórs Laxness svo og götuheiti. Árið 1993 var stofnuð þjónustumiðstöð sem veitir þeim einstaklingum þjónustu sem vegna fötlunar axla ekki þá ábyrgð að búa að öllu leyti einir. Þjónustumiðstöðin skiptist í tvö svið: heimilissvið og atvinnusvið.

Atvinna á Sólheimum byggði í fyrstu á landbúnaði og garðyrkju. Fyrstu árin leigði Sesselja hluta af Hömrum og rak þar fjárbú. Síðar var byggt fjós á Sólheimum og þar rekið kúabú. Forsendur voru ekki fyrir þeim rekstri eftir að niðurgreiðslur urðu stór hluti mjólkurverðs og Sólheimum var neitað um þær. Vefstofa tók til starfa um 1940, trésmíðaverkstæði 1979 og kertagerð um svipað leyti . Um langt skeið var starfandi brúðugerð og bókband. Árið 1995 var samþykkt stefnumótun í atvinnumálum. Ákveðið var að skilja á milli verndaðra vinnustaða og sjálfstætt starfandi fyrirtækja í eigu Sólheima. Nú eru starfandi fjögur fyrirtæki og sex verkstæði á Sólheimum. Sesseljuhús, umhverfissetur er einnig starfrækt sjálfstætt.

Helstu byggingar

Helstu byggingar reistar eftir 1985 eru byggðar fyrir gjafa- og söfnunarfé, án opinberrar aðstoðar og framlags úr framkvæmdasjóði fatlaðra.

Íþróttaleikhús Sólheima var reist 1985 m.a. fyrir söfnunarfé eftir Íslandsgöngu Reynis Péturs Ingvasonar. Gólfflötur íþróttaleikhússins er 759 fermetrar og tekur aðalsalurinn um 200 manns í sæti. Á jarðhæð er aðstaða fyrir líkamsrækt, sjúkraþjálfun og nudd.

Ólasmiðja var tekin í notkun 5. júlí 1995 á 65 ára afmæli Sólheima og er 754 ferm. að stærð. Ólasmiðja er fyrsta sérbyggða handverkshúsið á Sólheimum og ber nafn Óla M. Ísakssonar sem heimsótti Sólheima fyrst 92 ára og varð mikill velgjörðamaður staðarins. Í Ólasmiðju eru kertagerð Sólheima og trésmíða- og hljóðfæraverkstæði.

Ingustofa var tekin í notkun 5. júlí árið 2000 á 70 ára afmæli Sólheima. Ingustofa ber nafn Ingu Berg Jóhannsdóttur, stofnanda Húsasmiðjunnar sem var mikill velgjörðarmaður Sólheima. Húsið er 464 ferm. að stærð. Í Ingustofu er listsýningarsalur og fjórar vinnustofur, listasmiðja, vefstofa, jurtastofa og leirgerð.

Sesseljuhús var formlega tekið í notkun 5. júlí árið 2002 þegar eitt hundrað ár voru liðin frá fæðingu Sesselju Hreindísar, stofnanda Sólheima. Húsið er sýningrhús um sjálfbæra byggingar og fræðslumiðstöð fyrir umhverfismál. Ríkissjóður veitti 70 m. kr. framlag til byggingar hússins.

Sólheimakirkja var vígð 5. júlí 2005 á 75 ára afmæli Sólheima. Sigurbjörn Einarsson biskup og Magnea Þorkelsdóttir tóku fyrstu skóflustunguna að kirkjunni en herra Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands vigði kirkjuna. Kirkjan var eingöngu byggð fyrir gjafarfé.

Listir og menning

Lista- og menningarstarf hefur ávallt verið snar þáttur í starfi Sólheima. Fyrsta leikritið sem tekið var til sýningar á Sólheimum er leikritið “Ásta” eftir Margréti Jónsdóttur. Leikritið var sýnt 1931 en eftir það hafa verið sýnd leikrit árlega. Sesselja kynntist í Þýskalandi og Sviss helgileikritum frá miðöldum og þýddi Jakob J. Smári tvö leikrit fyrir hana; ‘Fæðingu Jesús’ og ‘Vitringana frá Austurlöndum’. Eftir að Rudolf Noah kom að Sólheimum 1935 og dvaldi þar til 1940 og síðar frá mars 1949 til 7. mars 1953 sá hann að mestu um sviðssetningu leikrita að Sólheimum.

Leikrit hafa síðan verið færð upp árlega og síðustu árin með virkri þátttöku fatlaðra sem ófatlaðra, barna sem fullorðinna. Árið 1984 fór Leikfélag Sólheima í leikferð um Norðurlöndin með leikritið ‘Lífmyndir’. Þá hafa verið gerðar nokkrar leiknar kvikmyndir á Sólheimum.

Tónlist hefur verið í hávegum höfð frá fyrstu tíð og flestum stundum hefur starfað tónlistarmenntað fólk á Sólheimum, sem haldið hefur uppi öflugu tónlistarlífi. Flutt voru inn hljóðfæri og önnur smíðuð á staðnum til tónlistarkennslu áður en farið var að kenna tónlist almennt í skólum hér á landi. Frá árinu 1989 hefur Sólheimakórinn haldið uppi reglubundnu starfi. Í dag er starfandi tónmenntakennari á Sólheimum.

Listir og menning

Höggmyndagarður Sólheima var formlega opnaður af Birni Bjarnasyni, menntamálaráðherra 10. júní 2000. Í höggmyndagarðinum eru verk eftir brautryðjendur íslenskrar höggmyndagerðar frá 1900 til 1950. Þá var höggmyndin Stafnbúinn eftir Helga Gíslason myndhöggvara reist á Austur-Ási árið 1995. Höggmyndin var gefinn Sólheimum í tilefni af 50 ára afmæli Péturs Sveinbjarnarsonar stjórnarformanns. Í undirbúningi er að reisa högmyndina Sólgátt eftir Rúrí á Vestur Ási.

Skátafélag Sólheima hefur tekið þátt í landsmótum skáta og Alheimsmóti skáta í Ástralíu 1986 og Englandi 2008. Íþróttafélagið Gnýr hefur haldið uppi reglubundnu íþróttastarfi undanfarin fimmtán ár og sent keppendur á mót hér á landi og erlendis.

Kennsla hófst á Sólheimum árið 1931 en árið 1943 samþykkti fræðslumálastjórnin að kosta fasta stöðu kennara á Sólheimum. Síðar var þessi staða yfirtekin af fullorðinsfræðslu fatlaðra og kennsla flutt frá Sólheimum á Selfoss.

Erlend áhrif

Fyrstu árin eru erlendir starfsmenn í meirihluta á Sólheimum. Flestir voru þýskir en einnig voru hér um lengri eða skemmri tíma danskir, sænskir, norskir, finnskir, enskir og svissneskir starfsmenn. Flestir þessara starfsmanna voru vel menntað fagfólk svo sem í garðyrkju, tónlist, tréskurði, myndlist, hjúkrun og umönnun barna. Erlend sjálfboðaliðasamtök hafa verið í samstarfi við Sólheima og eru enn. Þá koma hópar frá samtökum til Sólheima og starfa í eina til tvær vikur. Síðustu tvo áratugi hafa erlendir skiptinemar dvalið að Sólheimum á hverju ári, 4-5 í einu og dveljast þá í 6-12 mánuði. Undanfarin ár hefur tæpur tíundi hver íbúi að Sólheimum af erlendu bergi brotinn. Óhætt er að fullyrða að erlend áhrif hafa auðgað mannlífið og verkmenningu að Sólheimum.

Deilur

Starf Sólheima mætti oft tortryggni og andúð. Lög um barnavernd og stofnun barnaverndarnefnda og -ráðs voru samþykkt 1932. Fljótlega á eftir risu harðar deilur milli Sesselju og yfirvalda um stefnuna í rekstri Sólheima. Næstu tvo áratugina skarst oft í odda og stundum mjög alvarlega. Yfirvöld vildu ekki að á Sólheimum væru vistuð samtímis fötluð og ófötluð börn, því þau töldu að “heilbrigð börn gætu borið andlegt og líkamlegt tjón af umgengni við fávitana”. Þá ríkti ágreiningur um að grænmeti væri haft til matar, þótt börnunum væri einnig gefið að borða kjöt, fiskur og mjólk.

Þann 9. júní 1945 svipti barnaverndarráð Sesselju réttinda til að veita Sólheimum forstöðu. Sesselja kærði þann úrskurð og 1. apríl 1948 ógilti Hæstiréttur úrskurð barnaverndarráðs. Þann 12. september 1946 setti ríkisstjórnin bráðabirgðalög, aðeins tíu dögum fyrir samkomudag Alþingis, um að taka Sólheima leigunámi. Tilgangur laganna var að ríkið yfirtæki Sólheima og koma skyldi Sesselju í burtu af staðnum. Bráðabirgðalögin hlutu ekki staðfestingu Alþingis, þar sem Alþingi var leyst upp vegna ágreinings um Keflavíkurflugvöll.

Frá 1948 til 1980 ríkti friður um starfsemi Sólheima. Þann 1. janúar 1980 tóku gildi lög um aðstoð við þroskahefta. Stofnaðar voru svæðisstjórnir og framkvæmdanefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins. Hófst þá aftur erfiðleikatímabil í samskiptum við stjórnvöld.

Deilur

Ríkið náði því markmiði sínu að mestu að yfirtaka Sólheima árið 1983, þegar félagsmálaráðuneytið stóð fyrir því að Sólheimar voru settir á föst fjárlög. Launamál voru yfirtekin af fjármálaráðuneytinu, fjárveiting lækkuð um 40 % miðað við föst fjárlög og engin fjárveiting veitt til viðhalds húsnæðis og tækja. Þessi ákvörðun var tekin án samráðs og samþykkis stjórnar Sólheima og varð ekki hnekkt fyrr en tíu árum síðar er sjálfseignastofnunin fékk fullt sjálfstæði um rekstur Sólheima að nýju.

Þann 9. nóvember 1987 lögðu fulltrúar þáverandi félagsmálaráðherra, sem sátu í nefnd um búsetumál á Sólheimum, til “að þjóðkirkjan afhenti félagsmálaráðherra Sólheima frá og með næstu áramótum”. Árið 1991 voru samþykkt lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Frá því lögin voru samþykkt hefur sveitarstjórn Grímsnesshrepps (nú Grímsness- og Grafninshrepps) hafnað lögbundinni liðveislu við fatlaða íbúa á Sólheimum. Þann 23. janúar 1996 samþykkti sveitarstjórn Grímsnesshrepps að yfirtaka starfsemi Sólheima. Samþykktin var ítrekuð 26. ágúst 1996.

Stjórn og fulltrúaráð

Sesselja Hreindís Sigmundsdóttir veitti Sólheimum forstöðu þar til hún lést 1974. Náið samstarf var með Sesselju og sr. Guðmundi Einarssyni á Mosfelli. Guðmundur var lengi formaður barnaheimilisnefndar þjóðkirkjunnar. Hann stóð fyrir kaupunum á jörðinni Hverakoti og gekk frá skipulagsskrá Sólheima með Sesselju, sem staðfest var 1934. Guðmundur lést 1948. Eftir lát Sesselju skipaði barnaheimilisnefnd þjóðkirkjunnar fulltrúa í fimm manna stjórn Sólheima en árið 1987 var gerð breyting á skipulagsskrá Sólheima og sett á stofn fulltrúaráð skipað 21 fulltrúa, sem kaus fimm manna framkvæmdastjórn á aðalfundi ár hvert.

Árið 2004 var samþykkt ný skipulagsskrá. Fulltrúaráðsmenn eru 17 og kjörtímabil fulltrúaráðsmanns fjögur ár. Fimm manna framkvæmdastjórn er kosinn úr hópi fulltrúaráðsmanna til eins árs í senn. Þrír einstaklingar hafa gegnt formennsku frá 1975. Fyrsti formaður stjórnar Sólheima var sr. Ingólfur Ástmarsson, 1975 – 1978, sr. Valgeir Ástráðsson 1979 –1984 og Pétur Sveinbjarnarson frá 1984 – 2017 en varaformaður frá 1979. núverandi kosin stjórnarmaður 2017 er Sigurjón Örn Þórsson. 

Verndarenglar

Lionsklúbburinn Ægir var stofnaður 1957. Klúbburinn hefur stutt starfsemi Sólheima allt frá stofnun. Í fyrstu voru íbúum færðar jólagjafir og síðar voru Sólheimum færð rafmagnstæki. Á sjöunda áratugnum aðstoðuðu Ægismenn við byggingu húsa svo og fjármögnun og umsjón með viðbyggingu mötuneytis við Sólheimahús og endurbyggingu sundlaugar. Klúbburinn hefur á hverju ári gefið Sólheimum stórgjafir. Má sem dæmi nefna samtengt eldvarnarkerfi, eldhústæki og búnað, gólf í íþróttaleikhús, bifreið, byggingaefni í Ólasmiðju, húsgögn og búnað í sambýli, leirbrennsluofn í Ingustofu og búnað í jurtagerð.

Þá hafa Lionsfélagar staðið fyrir gróðursetningarferðum að Sólheimum og árlegum jólafagnaði í desember en það er einn af hápunktum í skemmtanahaldi íbúa. Einstaklingar í klúbbnum hafa einnig verið Sólheimum styrk stoð í rekstri og verklegum framkvæmdum.

Gunnar Ásgeirsson stórkaupmaður, félagi í Ægi var kjörinn heimilisvinur Sólheima 24. maí 1990. Gunnar lést 7. júlí 1991. Á 70 ára afmæli Sólheima 5. júlí árið 2000, var Tómas Grétar Ólason körinn heimilisvinur Sólheima. Tómas Grétar var félagi í Ægi í áratugi og átti sæti í fulltrúaráði og stjórn Sólheima, lengst af sem varaformaður Tómas Grétar Ólason var fæddur 11. febrúar 1935 og lést 4. október 2015.